Velkomnir í fallbaráttuna

Nú styttist óðum í að maður þurfi, með grátstafinn í kverkunum auðvitað, að kveðja einhver lið úr ensku úrvalsdeildinni. Úlfarnir sem alla hafa heillað með óviðjafnanlegum varnarleik sínum eru reyndar þegar fallnir. Eftir standa tvö niðurföll sem Blackburn, Bolton, Wigan, QPR og Aston Villa eiga svo sannarlega á hættu að leka niður í.

Staðan á botninum í dag.

Bolton bauð lærisveina Alex McLeish í Aston Villa velkomna í botnbaráttuna í kvöld með góðum sigri á Villa Park (á meðan heimsbyggðin fylgdist með kraftaverkinu á Camp Nou (engin orð geta lýst því sem þar gekk á)). McLeish, sem fór með hitt stóra liðið í Birmingham-borg niður um deild í fyrra, er sem sagt að skíta allsvakalega á sig með lið sem hefur staðið sig fantavel síðustu ár.

Um áramót voru Villa-menn í fínum málum um miðja deild en þeir hafa síðan unnið 2 af 16 leikjum. Auðvitað spilar ýmislegt inn í. Besti varnarmaðurinn, Richard Dunne, hefur verið meiddur síðan í febrúar. Besti miðjumaður liðsins, og fyrirliði, Stiliyan Petrov, greindist með hvítblæði í mars. Loks hefur besti framherjinn, Darren Bent, verið meiddur síðan í febrúar.

Liðið á núna eftir útileiki við WBA og Norwich, og heimaleik við Tottenham, og það má því alveg færa fyrir því rök að Villa vinni ekki fleiri leiki.

Leikirnir sem fallbaráttuliðin eiga eftir

Taflan að ofan sýnir leikina sem liðin eiga eftir. Bolton á einn aukaleik á hin, við Tottenham, sem vænkar hag liðsins vissulega. QPR og Blackburn mega alveg búast við að fá 3 stig úr sínum leikjum. Wigan er á flugi og ætti að bjarga sér að venju. Að þessu sögðu gæti ég trúað að Villa muni þurfa stig í kanarífuglabúrinu í lokaumferðinni, og það er hægara sagt en gert.

Hvet menn til að spá fyrir um lokaniðurstöðu á vef BBC með því að smella hér. Samkvæmt minni spá er Blackburn að fara að falla með 32 stig og QPR með 37 stig. Villa heldur sér uppi á markatölunni.

Þessi pistill flokkast undir Aston Villa, Blackburn, Bolton, Premier, QPR, Wigan, Wolves. Beinn hlekkur hér.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt.

*

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>