Spá Sjöunnar fyrir komandi tímabil: 4. sæti

4. sæti – Arsenal

Stjóri: Arsene Wenger – Fyrirliði: Thomas Vermaelen

Heimavöllur: The Emirates (60.361)

2011/2012: 3. sæti

Komnir: Lucas Podolski (Köln – 11m), Olivier Giroud (Montpellier -13m), Santi Cazorla (Malaga – 17m)

Farnir: Kyle Bartley (Swansea – 1m), Carlos Vela (Real Sociedad – 6m), Robin van Persie (Manchester United 22.5m), Manuel Almunia (Watford – frjáls sala)

Eftir skelfilega byrjun á síðasta tímabili sem náði lágpunkti í sögulegu 8-2 tapi gegn Manchester United dreif Arsene Wenger, stjóri Arsenal sig á leikmannamarkaðinn og nældi sér í 5 leikmenn korteri fyrir lokun síðasta haust.  Það má þó með sanni segja að það hafi ekki verið koma þessara manna heldur fyrst og fremst ofurmannleg frammistaða fyrirliðans Robin van Persie sem skilaði Arsenal að lokum þriðja sæti deildarinnar og um leið öruggu Meistaradeildarsæti, en van Persie varð markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt því að vera valinn bestur á síðastliðnu keppnistímabili.

Robin van Persie spilaði eins og engill á síðasta tímabili

En nú hefur verið gefin út formleg yfirlýsing um að Robin van Persie muni ganga til liðs við Manchester United.  Líkt og síðasta sumar þegar liðið „neyddist“ til að selja þá Cesc Fabregas og Samir Nasri þarf Arsenal nú að horfa uppá sinn besta leikmann hverfa á braut, og það sem meira er, það til fyrrum erkifjendanna í Manchester United.  Þessi tvö lið, sem áður háðu hatrammar baráttur um Englandsmeistaratitilinn og einokuðu efstu tvö sætin í deildinni árin 1998-2004 hafa fjarlægst hvort annað undanfarið og þessi félagsskipti breikka bilið enn frekar.  Það hlýtur að vera vondur og erfiður biti fyrir Arsenal-menn að kyngja að horfa uppá fyrirliðann sinn sem dró vagninn og skoraði 40% marka liðsins á síðasta ári fara frá liðinu.  Að sjá hann fara til Manchester United er eitthvað sem kallar á heimlich-aðferðina.

Heskey er samningslaus og gæti reddað málunum hjá Arsenal

Staðan er öðruvísi en með Fabregas og Nasri.  Það var orðið augljóst að Fabregas myndi alltaf snúa aftur á katalónsku heimahagana og í raun aðeins tímaspursmál hvenær það myndi gerast.  Nasri var 24 ára gamall leikmaður sem var á höttunum eftir ákveðinni launahækkun sem Arsenal vildi ekki gefa honum.  Sjálfsagt að hann fari þangað sem þessi krafa er uppfyllt.  Sama hvað fólk segir þá er van Persie ekki einungis að fara frá liðinu til að fá launahækkun.  Með því að færa sig svona um set er hann að gefa það í skyn að hann sjái ekki fram á að vinna titla með Arsenal og þurfi að fara í lið eins og Manchester United til að gera það.  Svipað og LeBron James í NBA-körfuboltanum gerði þegar hann skipti frá Cleveland Cavaliers yfir til Miami Heat fyrir tveimur árum.  Það er þessi yfirlýsing, eða eins og hann orðaði það: „Ég og Arsenal deilum ekki svipuðum metnaði og erum ekki sammála um hvernig framtíð félagsins er best borgið“, sem særir stuðningsmenn liðsins mest.

Stuðningsmenn Arsenal gætu þurft að redda sér svona á komandi leiktíð með gömlu Van Persie treyjuna

Varðandi önnur leikmannaviðskipti liðsins líta hlutirnir hins vegar örlítið betur út.  Wenger hefur brugðið útaf vananum og hefur nú þegar keypt 3 nokkuð þekkta leikmenn (venjulega hefur hann annaðhvort beðið með allt fram á síðustu stundu eða keypt meiðslahrjáða kjúklinga) sem ættu að styrkja hóp liðsins nokkuð.  Þjóðverjinn Lukas Podolski kom frá Köln, en þau mál voru kláruð strax í vor og má lesa ýmislegt um þau vistaskipti í fyrri grein Sjöunnar hér.  Næstur kom franski framherjinn Olivier Giroud frá Frakklandsmeisturum Montpellier HSC, en Giroud varð markahæsti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 21 mark auk þess að gefa 9 stoðsendingar.  Þriðji í röðinni er svo Spánverjinn Santi Cazorla, sem kom til liðsins á dögunum frá Málaga fyrir u.þ.b. 16 milljónir punda (að talið er) sem myndi gera hann að einum dýrasta leikmanni í sögu félagsins.  Cazorla er 27 ára gamall og getur leyst allar stöður á miðjunni, þó hann hafi oftast spilað á kantinum hjá Málaga og Villareal þar sem hann var áður.  Hann er þekktur fyrir gríðarlega tækni og útsjónarsemi auk þess að vera nær algjörlega jafnfættur.  Stuðningsmenn Arsenal vona að hér sé kominn maðurinn sem getur að mestu leyti fyllt upp í skarðið sem Cesc Fabregas skildi eftir sig þegar hann fór heim til FC Barcelona fyrir síðustu leiktíð.  Cazorla er mikils metinn í spænska landsliðinu, hefur leikið 51 landsleik fyrir þjóð sína og væru þeir án efa orðnir mun fleiri ef hann væri ekki að keppa um sæti við Xavi, Iniesta, Fabregas, Silva og félaga.

Magnað mark Cazorla á síðustu leiktíð

Þá gæti Nuri Sahin verið á leiðinni á láni frá Real Madrid eins og búist er við.  Sahin, sem var kosinn besti leikmaður þýsku Bundesligunnar leiktíðina 2010-2011, er skapandi leikmaður sem getur jafnt leikið sem fram- eða afturliggjandi miðjumaður og fer langt á góðri sendingagetu (ekki ósvipað Mikel Arteta).  Þá hefur Wenger sagt að Suður-Kóreski landsliðsfyrirliðinn Park Chu-Young, franski miðvörðurinn Sebastian Squillaci og danska egótröllið Nicklas Bendtner megi allir finna sér ný lið, en skiljanlega virðast fáir hafa áhuga á þjónustu þessara manna.  Mexíkóinn Carlos Vela fór til Real Sociedad og Manuel Almunia fór frítt til Watford.  Þá hefur kamerúnska akkerið Alex Song verið orðaður við Barcelona, en 15 milljón punda verðmiði Arsenal á leikmanninum er líklegur til að fæla liðið frá.  Ef sú sala gengur í gegn er talað um að Wenger horfi til Lucas Biglia, miðjumanns Anderlecht til að taka við stöðu miðjumúrbrjótsins.

Fróðlegt verður að sjá hvaða liðstreyju og/eða auglýsingum Nicklas Bendtner mun skarta á komandi leiktíð

Ekki er búist við neinum breytingum á leikskipulagi Arsenal á næstu leiktíð.  Eins og síðustu tvö keppnistímabil mun liðið væntanlega leika 4-2-3-1 leikkerfið sem er orðið svo vinsælt í heimsfótboltanum í dag og lið eins og Real Madrid, Borussia Dortmund, Manchester City auk þýska og spænska landsliðsins hafa tileinkað sér.  Wojciech Szczesny er orðinn markvörður númer eitt, en Spánverjinn Manuel Almunia var látinn fara frá félaginu og því eru það bara þeir Vito Mannone og Lukasz Fabianski sem munu keppa við hann um stöðu og ætti þetta að verða nokkuð þægilegt fyrir Szczesny.

Thomas Vermaelen og Laurent Koscielny munu væntanlega mynda miðvarðaparið og Þjóðverjinn Per Mertesacker fyrsti maður inn ef annar hvor þeirra meiðist.  Andre Santos og Kieran Gibbs munu berjast um vinstri bakvarðarstöðuna meðan Bakary Sagna hefur umtalsvert forskot á Carl Jenkinson í þeirri hægri.  Alex Song og Mikel Arteta munu væntanlega leika á miðri miðjunni (a.m.k. þar til og ef Jack Wilshere og Abou Diaby verða nokkurn tímann heilir heilsu), þar sem Song sér um að brjóta niður sóknir andstæðinganna meðan Arteta sér um að hefja sóknir Arsenal.  Þeir Theo Walcott, Alex Oxlade-Chamberlain, Gervinho, Andrey Arshavin og Lukas Podolski munu væntanlega keppast um kantstöðurnar tvær, meðan Santi Cazorla mun leika í frjálsu hlutverki fyrir aftan framherjann, með þá Tomas Rosicky og Aaron Ramsey klára til að taka við keflinu.  Nú þegar RVP er farinn frá liðinu eru einnig góðar líkur á að Wenger noti Podolski sem framherja en hann og Giroud gætu skipt stöðunni á milli sín uns Wenger finnur út hvor þeirra hentar liðinu betur.  Hinn ávallt vatnsgreiddi Marouane Chamakh verður svo væntanlega þriðji og síðasti valkostur.

Nýr varabúningur Arsenal hefur vakið mikla athygli, en þó ekki jafn mikla og hinn Barbie-bleik markmannsbúningur

Ef hlutirnir smella hjá Arsenal gætu þeir gert góða hluti, þótt erfitt sé að sjá fram á að þeir geti keppt við Manchester-liðin í toppbaráttu.  Ef vörn og markvarðsla, sem hafa verið akkilesarhæll liðsins undanfarin ár haldast áfram á þeirri beinu braut sem farin var að myndast undir lok síðasta tímabils eru þeim þó flestir vegir færir.  Gengi liðsins gæti þó ráðist af stóru leyti af því hvernig gengur að púsla nýju mönnunum inn í liðið.  Líklegt er þó að þeir muni keppa við Tottenham, Chelsea og jafnvel Newcastle og Liverpool um 3-4 sætið.

Lykilmenn: Thomas Vermaelen, Santi Cazorla, Lukas Podolski, Jack Wilshere

Fylgstu með: Olivier Giroud.

Þessi pistill flokkast undir Arsenal, Félagsskipti, Premier, Spá, Uncategorized, Upphitun og taggaður í , , , , . Beinn hlekkur hér.

Eitt ummæli við Spá Sjöunnar fyrir komandi tímabil: 4. sæti

  1. halli says:

    song farin

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt.

*

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>