Spá Sjöunnar fyrir komandi tímabil: Meistarar

1. sæti – Manchester City

Stjóri: Roberto Mancini – Fyrirliði: Vincent Kompany

Heimavöllur: Etihad-völlurinn (47.726)

2011/2012: 1.sæti

Komnir: Jack Rodwell (Everton -12m)

Farnir: Owen Hargreaves

Þær eru teljandi á fingrum annarar handar mínúturnar sem skildu á milli feigs og ófeigs á síðustu leiktíð. Sendingin frá Balotelli, taktarnir og yfirvegunin hjá Agüero, boltinn í netinu og tryllingsleg fagnaðarlætin sem fylgdu í kjölfarið. Þetta er eitthvað sem enginn getur gleymt enda hlýtur það að vera einsdæmi, og alla vega verulega fátítt, að úrslitin í langri deildarkeppni snúist í uppbótartíma síðasta leiks með svo hádramatískum hætti.

Fyrst komu sjeikarnir, svo kom Mancini, þá fyrsti bikarinn í 35 ár, og nú er Manchester City ríkjandi Englandsmeistari. Stökkin hafa verið stór síðustu ár, múrbrotið mikið og nú er enn ein áskorunin komin – að verja titil í fyrsta sinn í sögu félagsins. 

City fékk fljúgandi start á síðustu leiktíð og tapaði ekki nema einum leik fyrir áramót! Í mars virtist hins vegar farið að hrikta vel í stoðunum og á mánaðartímabili vannn liðið aðeins einn leik af fimm. Titillinn virtist vera að glatast, spárnar um að City-menn hefðu ekki taugarnar sem til þurfti að ganga eftir, en með sigrum í síðustu sex leikjunum, þar á meðal risasigrum á WBA og Norwich, tókst að landa honum á markatölu. Báðir leikirnir við vinina í Manchester United unnust, sá fyrri með hreinni niðurlægingu, og það gerði gæfumuninn.

Heimavallarárangurinn var hreint ótrúlegur eða 100% ef undan er skilið jafntefli við Sunderland, sem þó var á vissan hátt sigur því liðið skoraði tvö mörk í lokin til að tryggja sér stig. Andstæðingarnir fara því ekkert stútfullir af bjartsýni í bláa hluta Manchesterborgar í vetur. Árangurinn á útivelli var sömuleiðis ekki slæmur en kannski má nefna það sem áhyggjumál að ekki skyldi takast að skora í fimm leikjum.

City-menn féllu úr leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í desember og voru ef til vill ekki nægilega áhugasamir um að ná árangri í Evrópudeildinni þar sem þeir féllu svo út í 16 liða úrslitum. Nú hljóta menn að vilja ná betri árangri í Evrópumálunum líkt og fleiri.

Carlos Tevez hefur ekki tíma í svona rugl núna.

Sumir vilja meina að City hafi keypt sér titilinn með því að leggja háar fjárhæðir í leikmenn en slíkt tal felur í sér vanvirðingu fyrir fótboltanum. Það þarf mikið meira til en peninga. Mancini verður að fá mikið hrós fyrir sinn þátt, fyrir að stýra þessum hópi í mark. Margur hefði verið búinn að fá sig fullsaddan af skemmtikraftinum Mario Balotelli eða neitað að sættast við Carlos Tévez eftir alla hans ólund en báðir áttu stóran þátt í lokaskrefunum að titlinum. Báðir gætu átt eftir að spila stórt hlutverk í vetur.

Öllu meira traust er þó hægt að bera til besta varnarmanns og besta miðjumanns deildarinnar sem City á í fyrirliðanum Vincent Kompany og Yaya Toure. David Silva og Sergio Agüero voru einnig lengst af stórkostlegir á síðustu leiktíð.

City hefur haft hægt um sig á leikmannamarkaðnum í sumar. Aðeins Jack Rodwell hefur komið frá Everton, hann er ungur og gæti týnst í fríðum flokki miðjumanna. Vörnin er nokkuð vel skipuð þó að betri miðverðir finnist en Joleon Lescott. Með Balotelli, Tévez, Agüero og Edin Dzeko til taks í framlínunni er svo kannski ekki skrýtið að Robin van Persie skyldi látinn í friði. Ef einhverju mætti bæta við hópinn væri það helst banvænn kantmaður sem hægt væri að tefla fram þegar illa gengur að skora eins og gerðist stundum á síðustu leiktíð. Það er alveg ljóst að liðin eru ekkert að fara að pakka minna í vörn gegn ríkjandi meisturum nú.

Það þarf ekki merkilegan spámann til að setja City í 1. sætið. Liðið er með góðan stjóra og magnaðan leikmannahóp sem nú hefur prófað að þjóra kampavín úr Englandsmeistarabikarnum. Reynslan mun nýtast. Þessi hópur er líklegastur til að fagna sigri í vor en til þess má lítið út af bregða.

Lykilmenn: Joe Hart, Vincent Kompany, Yaya Toure, Sergio Aguero

Fylstu með: Carlos Tevez

Þessi pistill flokkast undir Man City, Spá, Upphitun. Beinn hlekkur hér.

5 Ummæli við Spá Sjöunnar fyrir komandi tímabil: Meistarar

 1. Einar says:

  Góð spá hjá ykkur að Aguero verði lykilmaður. Hann verður í meiðslaveseni út tímabilið held ég..

 2. Það er ósköp lítið athugavert við það að spá því að markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili verði lykilmaður í vetur. Auðvitað er þetta miðað við að hann haldi sér meiðslalausum.

 3. Val says:

  Aldrei…aldrei….aldrei…séns að City taki þetta aftur. Það fer allt í hund og kött hjá bláum þar sem egóstríð fer í gang með Bolatelly og Tevis í fararbroddi.. Spagettikötturinn missir klefann eftir um 2 mánuði og verður sagt upp í jólafríinu.

  furðulega skammsýn spá..
  kv
  vp

 4. halli says:

  city eru bestir ja meiðsli aguero eru ekki svo slæm city tekur deildina aftur i ar

 5. This article will assist the internet people
  for setting up new weblog or even a weblog from start to end.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt.

*

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>