Skítavítanýting

Ég trúi á heilagan Ferguson og ætti ekki frekar en aðrir nokkurn tímann að efast um einhverja af hans ákvörðunum eða athöfnum. Mér er engu að síður fyrirmunað að skilja hvers vegna sú regla er ekki höfð í heiðri hjá Manchester United að sé Robin van Persie inni á vellinum hafi hann það hlutskipti að taka vítaspyrnur liðsins. Maðurinn er með einn traustasta vinstri fót í heimi og skilaði 85% vítanýtingu á tíma sínum með Arsenal. Ég nennti að pæla aðeins í þessu út af skelfilegri vítanýtingu United á leiktíðinni en Van Persie skoraði úr eina af fjórum vítum sem United hefur nýtt í deildinni til þessa.

Vissulega klúðraði Van Persie fyrsta víti sínu í United-búningnum en það breytir engu um það hversu sjálfsagður kostur hann er sem vítaskytta. Og góð vítaskytta er mikilvæg fyrir öll lið. Sjáið bara Liverpool á síðustu leiktíð. Fimm víti af sex í deildinni fóru í súginn, 17% nýting. Blackburn hefði kannski haldið sér uppi ef fjögur af sjö vítum hefðu ekki klúðrast, og þannig mætti halda áfram. Missti Arsenal ekki af tveimur stigum með vítinu hjá Mikel Arteta um helgina? Það er dýrmætt að geta látið menn eins og Leighton Baines sjá um þetta en Everton var með 100% vítanýtingu á síðustu leiktíð.

Svona á að taka vítaspyrnu.

Því hefur verið haldið fram í gegnum tíðina að eðlilegt sé að lið nýti 4 af hverjum 5 vítaspyrnum sínum og það kemur ágætlega heim og saman við vítanýtingu almennt í úrvalsdeildinni en frá árinu 2002 er hún að meðaltali 79%.

Það er hins vegar athyglisvert að það sem af er yfirstandandi leiktíð er vítanýting liðanna 20 í deildinni komin undir 70%. Hún var sömuleiðis ekki nema 72% á síðustu leiktíð. Trendið má sjá á þessu fallega meðfylgjandi grafi.

Ég veit ekki hvað það er sem stuðlar að þessari þróun. Kannski eru markverðir bara orðnir betri í að lesa andstæðinginn og betur mataðir á upplýsingum um „uppáhalds horn“ þeirra. Kannski er minna um að alvöru naglar séu að taka spyrnurnar, menn sem láta ekki utanaðkomandi pressu trufla sig. Kannski er um tilviljun að ræða.

Menn geta alla vega greinilega farið að hugsa sig tvisvar um áður en þeir væla um að hafa verið rændir sigri bara af því að þeir fengu ekki víti sem þeir áttu að fá. Þetta er reyndar líka synd fyrir þá sem vilja losna við „tvöföldu refsinguna“ svokölluðu, þegar bæði víti og rautt spjald er notað sem refsing fyrir brot innan teigs.

Í lokin, af því að við höfum öll svo hrikalega gaman af dýfu-umræðunni, er svo vert að benda á þróunina sem orðið hefur í fjölda vítaspyrna sem dæmdar eru á hverri leiktíð. Um aldamótin var verið að dæma um 60 vítaspyrnur á leiktíð samkvæmt mínum heimildum en síðustu ár hafa þau verið í kringum 100. Það er góð 67% aukning sem setja má spurningamerki við.

Heimildir: Transfermarkt og Myfootballfacts

Þessi pistill flokkast undir Pistlar, Premier. Beinn hlekkur hér.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt.

*

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>